Veikindi herja á Manchester United

Marcus Rashford æfði ekki með Manchester United í dag vegna …
Marcus Rashford æfði ekki með Manchester United í dag vegna veikinda. AFP/Oli Scarff

Hætta er á að tveir sóknarmanna Manchester United verði ekki leikfærir vegna veikinda annað kvöld þegar liðið  tekur á móti Bayern München í lokaumferð riðlakeppni Meistaradeildar karla í fótbolta.

Marcus Rashford og Anthony Martial æfðu ekki með United í dag vegna veikinda samkvæmt frétt The Athletic í dag.

Eins er óvissa með sænska varnarmanninn Victor Lindelöf sem er tæpur vegna meiðsla. Erik ten Hag knattspyrnustjóri sagði á fréttamannafundi í dag að það yrði ekki á hreinu fyrr en á morgun hvort hann yrði leikfær.

Fyrir utan þetta eru margir í leikmannahópi United fjarverandi vegna meiðsla en Casemiro, Lisandro Martinez, Tyrell Malacia, Christian Eriksen og Mason Mount allir úr leik, auk þess sem Jadon Sancho er í banni hjá félaginu.

Manchester United verður að vinna þýska stórliðið á Old Trafford til að eiga möguleika á að komast áfram í Meistaradeildinni, en þá þarf líka leikur FC Köbenhavn og Galatasaray að enda með jafntefli.

Fyrir lokaumferðina er Bayern langefst og komið áfram með 13 stig, FC Köbenhavn og Galatasaray eru með 5 stig og mætast á Parken en Manchester United er með 4 stig.

Tvö efstu liðin fara áfram í Meistaradeildinni en liðið í þriðja sæti fer yfir í útsláttarkeppni Evrópudeildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert