„Þetta Chelsea-lið er efni í einhverja meistararitgerð,“ sagði Aron Elvar Finnsson, íþróttablaðamaður á mbl.is og Morgunblaðinu, í Fyrsta sætinu þegar rætt var um enska boltann.
Chelsea hefur eytt yfir milljarði punda í nýja leikmenn frá því bandaríski auðkýfingurinn Todd Boehly keypti félagið af Roman Abramovich sumarið 2022 en þrátt fyrir það hefur gengi liðsins verið afleitt og situr liðið sem stendur í 12. sæti úrvalsdeildarinnar með 19 stig.
„Þeir eru búnir að eyða milljarði punda og þeir eru komnir í 12. sæti úrvalsdeildarinnar,“ sagði Aron Elvar.
„Það er eiginlega alveg sama hversu margir eru meiddir hjá þér. Ef þú ert stjóri Chelsea og félagið er búið að eyða milljarði punda í nýja leikmenn, þá verður þú að gjöra svo vel og vinna einhverja leiki.
Þú getur notað meiðslin sem einhverja afsökun upp að einhverju marki en þetta er engin afsökun lengur. Þeir eru bara í algjöru rugli,“ sagði Aron Elvar meðal annars.