Spánverjinn Julen Lopetegui þykir líklegastur til þess að taka við stjórnartaumunum hjá enska knattspyrnufélaginu Manchester United fari svo að Erik ten Hag verði rekinn.
Það er spænski miðillinn Relevo sem greinir frá þessu en Lopetegui, sem er 57 ára gamall, er án starfs í dag.
Hann stýrði síðast Wolves í ensku úrvalsdeildinni en lét nokkuð óvænt af störfum rétt áður en yfirstandandi tímabil hófst vegna ósættis við eigendur félagsins.
Hann hefur einnig stýrt spænska landsliðinu og Real Madrid á þjálfaraferlinum en stjórnarmeðlimir United eru sagðir hrifnastir af því að fá Lopetegui til starfa af þeim valkostum sem í boði eru.
Ten Hag þykir ansi valtur í sessi þessa dagana eftir að félagið endaði í neðsta sæti A-riðils Meistaradeildarinnar í gær en Hollendingurinn tók við stjórnartaumunum hjá félaginu sumarið 2022.