Hollenski knattspyrnustjórinn Erik ten Hag gæti verið á leið til Þýskalands fari svo að hann verði rekinn sem knattspyrnustjóri Mancehster United.
Það er þýski miðillinn Bild sem greinir frá þessu en Matthias Sammer, ráðgjafi hjá Borussia Dortmund og fyrrverandi stjóri og leikmaður liðsins, er mikill aðdáandi hollenska stjórans.
Forráðamenn Dortmund eru sagðir opnir fyrir því að ráða hollenska stjórann en hann og Sammer unnu saman hjá Bayern München á árunum 2013 til 2015 við góðan orðstír.
Það er mjög heitt undir ten Hag þessa dagana eftir að liðið endaði í neðsta sæti A-riðils Meistaradeildarinnar og leikur því ekki fleiri Evrópuleiki á tímabilinu.
Ten Hag tók við stjórnartaumunum hjá United sumarið 2022 en liðið situr sem stendur í sjötta sæti úrvalsdeildarinnar með 27 stig.