Franski knattspyrnumaðurinn Raphaël Varane gæti yfirgefið enska úrvalsdeildarfélagið Manchester United á frjálsri sölu næsta sumar.
Það er The Athletic sem greinir frá þessu en miðvörðurinn, sem er þrítugur, gekk til liðs við United frá Real Madrid sumarið 2021 fyrir 40 milljónir punda.
Þegar félagaskipti gengu í gegn á sínum tíma tilkynnti United að samningurinn væri til næstu fimm ára eða til sumarsins 2026 en The Athletic greinir frá því að samningurinn hafi aðeins verið til tveggja ára með möguleika á árs framlengingu.
United getur ennþá framlengt samning varnarmannsins um eitt ár en eins og sakir standa rennur núgildandi samningur Varanes út næsta sumar.
Frakkinn á að baki 76 leiki fyrir félagið í öllum keppnum þar sem hann hefur skorað tvö mörk en hann hefur ekki átt fast sæti í liði United á tímabilinu.