„Liverpool er á tæpasta vaði og þarf að fara finna gírinn sinn ef liðið ætlar að halda áfram að vinna leiki,“ sagði Hörður Snævar Jónsson, ritstjóri 433.is, í Fyrsta sætinu þegar rætt var um enska boltann.
Liverpool trónir á toppi deildarinnar eftir 16. umferðina eftir dramatískan sigur gegn Crystal Palace í Lundúnum þar sem sigurmarkið kom í uppbótartíma en Manchester City, ríkjandi meistari, er í fjórða sætinu með 33 stig.
„Fulham-leikurinn og svo leikurinn gegn Crystal Palace, það gengur ekki endalaust að vinna þetta á lokamínútunum,“ sagði Hörður Snævar.
„Þeir eru einum miðjumanni og einum varnarmanni frá því að gera alvöru atlögu að titlinum því þeir eru með þannig sóknarmenn að þeir munu alltaf skora mörk. Fyrir mér eru tvö lið sem geta orðið meistari og það eru Manchester City og Liverpool,“ sagði Hörður Snævar meðal annars.