Knattspyrnumaðurinn Moises Caicedo hafnaði því að ganga til liðs við enska úrvalsdeildarfélagið Liverpool í sumar.
Caicedo, sem er 22 ára gamall, ákvað þess í stað að ganga til liðs við Chelsea frá Brighton en Liverpool lagði fram 105 milljóna punda tilboð í leikmanninn sem hefði gert hann að langdýrasta leikmanni í sögu félagsins.
Liverpool hefur leikið vel á tímabilinu og trónir sem stendur á toppi ensku úrvalsdeildarinnar á meðan ekkert hefur gengið upp hjá Chelsea sem er með 19 stig í tólfta sætinu.
„Ég átti í viðræðum við Chelsea í langan tíma og það var ómögulegt fyrir mig að segja nei við þá,“ sagði Caicedo í samtali við Sky Sports.
„Það var virkilega erfitt að kveðja Brighton en Chelsea stóð mjög þétt við bakið á mér í öllu ferlinu. Símtalið frá Liverpool kom of seint.
Ég var búinn að taka ákvörðun um að ganga til liðs við Chelsea og mig langaði að spila fyrir þá. Það var erfitt að sjá fyrir sér eitthvað annað þegar þarna var komið við sögu,“ bætti Caicedo við en hann hefur leikið 14 leiki með Chelsea í úrvalsdeildinni á tímabilinu.