Karlalið Brentford í knattspyrnu hefur orðið fyrir miklu áfalli þar sem sóknarmaðurinn Bryan Mbeumo, að öðrum ólöstuðum besti leikmaður liðsins á tímabilinu, er meiddur og verður lengi frá.
Mbeumo hefur látið vel að sér kveða í fremstu víglínu hjá Brentford og skorað sjö mörk í 15 leikjum í ensku úrvalsdeildinni ásamt því að leggja upp fjögur mörk til viðbótar.
Á fréttamannafundi í dag greindi Thomas Frank, knattspyrnustjóri Brentford, frá því að Mbeumo hafi gengist undir skurðaðgerð vegna ökklameiðsla og verði af þeim sökum frá um 12 vikna skeið, tæplega þrjá mánuði.
Kamerúninn snýr því ekki aftur á völlinn fyrr en í fyrsta lagi í mars á næsta ári.