Andy Cole, fyrrverandi framherji Manchester United og enska landsliðsins, hefur áhyggjur af stöðu mála hjá sínu gamla félagi.
Tímabilið hefur verið erfitt hjá United og hafnaði liðið m.a. neðst í sínum riðli í Meistaradeildinni og er úr leik í Evrópu á tímabilinu.
„Það er einhver svikari í klefanum. Það koma bara neikvæðar fréttir úr herbúðum félagsins og þær koma beint úr klefanum. Það er það sem getur gerst þegar leikmenn eru ósáttir. Það koma aldrei slæmar fréttir úr klefanum þegar leikmenn eru með hugarfar sigurvegara.
En þegar fer að ganga illa koma slæmar fréttir úr klefanum. Einhverjir leikmenn vilja spila meira og eru ósáttir við gengi liðsins. Þá er hætta á að upplýsingar byrja að leka úr klefanum,“ sagði Cole við Betfred.