Liverpool tók á móti Manchester United í stórleik umferðarinnar í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Leikurinn var frekar tíðindalítill og endaði með markalausu jafntefli.
Eftir leikinn er Liverpool í 2. sæti deildarinnar með 38 stig, stigi á eftir toppliði Arsenal. Manchester United situr hinsvegar í 7. sætinu með 28 stig, stigi á eftir Newcastle.
Fyrir leik var búist við mikilli spennu á Anfield leikvanginum í Liverpool og bjuggust flestir við auðveldum sigri heimamanna en annað kom á daginn.
Heimamenn byrjuðu betur og fengu til að mynda sex hornspyrnur á fyrstu 18 mínútum leiksins. Liðinu gekk illa að skapa sér einhver dauðafæri á meðan liðsmenn Manchester United lágu til baka og vörðu mark sitt vel.
Alejandro Garnacho, vængmaður Manchester United, átti fyrstu marktilraun leiksins á 10. mínútu þegar hann fékk sendingu frá Scott McTominay og lét vaða að marki. Skot hans var hinsvegar slakt og fór hátt yfir markið.
Aðeins mínútu síðar lét Dominik Szoboszlai vaða að marki gestanna en skot hans fór einnig töluvert yfir markið.
Mohamed Salah fékk hálffæri eftir klafs í teig gestanna og átti Egyptinn skot að marki sem André Onana, markvörður Manchester United, varði vel í hornspyrnu.
Á 28. mínútu kom besta færi fyrri hálfleiksins þegar Trent Alexander-Arnold tók hornspyrnu sem fór beint á kollinn á fyrirliða Liverpool, Virgil van Dijk. Hollendingurinn stökk manna hæst og átti fínan skalla að marki United en því miður fyrir Liverpool-menn varði Onana skallann yfir markið.
Lítið markvert gerðist það sem eftir lifði fyrri hálfleiks sem einkenndist af baráttu og gulum spjöldum. Alls hafði Michael Oliver, dómari leiksins, lyft gula spjaldinu fjórum sinnum þegar hann flautaði til hálfleiks.
Síðari hálfleikur spilaðist alveg eins og sá fyrri. Heimamenn sóttu og sóttu en náðu ekki að skapa sér nein dauðafæri.
Mohamed Salah átti skot að marki gestanna á 64. mínútu sem Onana varði auðveldlega í marki gestanna.
Tveimur mínútum seinna átti Trent Alexander-Arnold gott skot fyrir utan teig en boltinn snérist útfyrir stöngina og fór framhjá markinu.
Gestirnir fengu sitt langbesta færi í dag á 67. mínútu þegar Scott McTominay lagði boltann innfyrir á Rasmus Höjlund. Daninn náði skoti að marki en Alisson varði vel í rammanum.
Ibrahima Konaté, miðvörður Liverpool, fékk fínt tækifæri til að skora á 77. mínútu þegar boltinn datt fyrir fætur hans inni á teig gestanna. Konaté gerði vel í að snúa af sér varnarmann og náði skoti að marki en það fór beint á Onana í markinu.
Á fjórðu mínútu uppbótartíma fékk Diogo Dalot tvö gul spjöld með nokkurra sekúndna millibili. Það fyrra fékk hann fyrir að mótmæla innkastdómi, það dugði ekki fyrir hann og hélt hann áfram að mótmæla dómnum. Michael Oliver, góðum dómara leiksins, fannst nóg komið og sýndi hann Portúgalanum annað gult spjald og þar með rautt.
Heimamenn náðu ekki að pota inn marki í restina og endaði leikurinn því með markalausu jafntefli.