Kevin De Bruyne, einn besti knattspyrnumaður heims, æfði á ný með Evrópu- og Englandsmeisturum Manchester City í dag, í fyrsta skipti í rúma fjóra mánuði.
De Bruyne hefur aðeins spilað tvo leiki á yfirstandandi tímabili, leikinn gegn Arsenal um Samfélagsskjöldinn 6. ágúst, og gegn Burnley í fyrstu umferð úrvalsdeildarinnar fimm dögum síðar.
Í leiknum við Burnley fór hann meiddur af velli eftir aðeins 23 mínútur, tognaður aftan í læri, fór í aðgerð og hefur ekki spilað síðan.
Manchester City er í Sádi-Arabíu þessa dagana og mætir Urawa Red Diamonds frá Japan í undanúrslitum heimsbikars félagsliða á morgun. Nokkrir fjölmiðlar, þar á meðal ESPN, greindu frá því að Belginn öflugi hefði verið með á æfingu liðsins í dag.
Manchester City hefur saknað hans sárlega að undanförnu en liðið er nú í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar og hefur aðeins unnið einn af síðustu sex leikjum sínum í deildinni.