Van Dijk vísar ummælum Keane á bug

Virgil van Dijk og Antony í leiknum í gær.
Virgil van Dijk og Antony í leiknum í gær. AFP/Paul Ellis

Virgil van Dijk, fyrirliði Liverpool, segist ekki sammála Roy Keane, fyrrverandi fyrirliða Manchester United og núverandi sparkspekingi, sem sagði Hollendinginn vera hrokafullan.

Eftir leik liðanna í ensku úrvalsdeildinni á Anfield í gær gagnrýndi Keane ummæli van Dijk á Sky Sports sem hann lét falla eftir markalaust jafntefli erkifjendanna.

Miðvörðurinn sagði einungis eitt lið hafa reynt að sækja til sigurs, Man. United hafi aðeins mætt til að verjast og væri hæstánægt með eitt stig.

Keane sagði þessi ummæli hrokafull og minnti van Dijk á að Liverpool hafi einungis unnið einn deildartitil á rúmum þremur áratugum.

„Ég kann vel við Roy Keane. Ef hann sagði þetta þá er það í góðu lagi. Hann er gegnheill Man. United-maður og ég skil af hverju hann bregst svona við.

En þetta var upplifun mín af leiknum og ég greindi frá henni og það er enginn hroki fólginn í því. Allir sem horfðu á leikinn eru eflaust sammála mér þar.

Við höldum áfram. Við fengum tækifæri en við gátum ekki skorað og það pirrar okkur,“ hefur Mirror eftir van Dijk.

Hann ítrekaði svo ummæli sín um Man. United.

„Það gengur auðvitað ekki sem best hjá þeim og ef þú mætir hingað eftir að hafa tapað stórt síðast þá ertu ánægður með eitt stig,“ sagði van Dijk og vísaði til 7:0-sigurs Liverpool á síðasta tímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka