Chelsea tryggði sér í kvöld sæti í undanúrslitum enska deildabikarsins í fótbolta eftir heimasigur á Newcastle, þar sem úrslitin réðust í vítakeppni.
Callum Wilson kom Newcastle yfir á 16. mínútu og stefndi í að það yrði sigurmarkið, því staðan var enn 1:0 þegar venjulegur leiktími var liðinn.
Þá skoraði Úkraínumaðurinn Mykhaylo Mudryk fyrir Chelsea og tryggði liðinu vítakeppni, en ekki er framlengt í deildabikarnum. Chelsea skoraði úr öllum fjórum spyrnum sínum í vítakeppninni, en Newcastle aðeins úr tveimur.
Fulham er einnig komið áfram eftir sigur á Everton í vítakeppni. Michael Keane kom Fulham yfir með sjálfsmarki á 41. mínútu og varamaðurinn Beto jafnaði á 82. mínútu og urðu lokatölur í venjulegum leiktíma 1:1.
Í vítakeppninni skoraði Fulham sjö mörk gegn sex hjá Everton og Lundúnaliðið fer því í undanúrslit.
Middlesbrough úr B-deildinni er einnig komið áfram í undanúrslit eftir 3:0-útisigur á Port Vale úr C-deildinni. Jonathan Howson, Morgan Rogers og Matt Crooks gerðu mörk Middlesbrough.