Pepijin Lijnders, aðstoðarþjálfari enska knattspyrnufélagsins Liverpool, gaf upplýsingar um stöðu leikmanna á heimasíðu félagsins í dag.
Hollenski miðjumaðurinn Ryan Gravenberch þurfti að víkja af velli gegn Manchester United um helgina en eftir leik kom í ljós að það hefði einungis verið vegna þreytu og er búist við að hann nái sér fyrir stórleikinn gegn Arsenal um næstu helgi. Hann vonar að Gravenberch nái að æfa með liðinu í dag en óljóst hvort hann verði klár fyrir leikinn gegn West Ham annað kvöld.
Alexis Mac Allister, miðjumaður Liverpool og núverandi heimsmeistari í fótbolta, fór meiddur af velli gegn Sheffield United fyrir rúmri viku síðan, en í fyrstu leit út fyrir að meiðslin væru nokkuð alvarleg.
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, sagði eftir leikinn að hann hefði aldrei áður séð svona meiðsli og var óviss um hve langan tíma endurhæfingin myndi taka.
„Andstæðingurinn steig ofan á hné Mac Allister og takkarnir á skónum fóru eiginlega alveg inn að beini. Nú þurfum við að bíða eftir að hann jafni sig og verði sársaukalaus.“
Samkvæmt Lijnders er Mac Allister nú laus við sársaukann og endurhæfingin því komin á næsta stig. Ekki er búist við að hann spili aftur fyrir Liverpool fyrr en á nýju ári.