Portúgalinn að snúa aftur í úrvalsdeildina?

Nuno Espírito Santo.
Nuno Espírito Santo. AFP

Portúgalski knattspyrnustjórinn Nuno Espírito Santo hefur rætt við forráðamenn enska félagsins Nottingham Forest um að taka við stjórnarntaumunum hjá karlaliðinu.

Steve Cooper er enn í starfi en sæti hans er farið að hitna allverulega eftir afar slæmt gengi að undanförnu.

Forest hefur tapað fimm af síðustu sex leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni og aðeins unnið einn af síðustu 13 leikjum í öllum keppnum.

Sky Sports greinir frá því að samband Coopers og eigandans Evangelos Marinakis hafi versnað að undanförnu og að því sé gríski kaupsýslumaðurinn að íhuga að skipta um stjóra.

Nuno, sem stýrði áður Wolverhampton Wanderers og Tottenham Hotspur í ensku úrvalsdeildinni, er sagður mjög ofarlega á blaði og hafa fyrstu viðræður milli aðila gengið vel.

Annar fyrrverandi stjóri Úlfanna, Julen Lopetegui, er einnig á blaði hjá Forest auk Oliver Glasner, sem stýrði áður Eintracht Frankfurt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka