Atlético Madrid tapaði stigum í toppbaráttunni í spænsku 1. deildinni í fótbolta í kvöld er liðið gerði 3:3-jafntefli við Getafé á heimavelli í ótrúlegum leik.
Stefan Savic hjá Atlético fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt í stöðunni 0:0 á 38. mínútu. Þrátt fyrir það skoraði Antoine Griezmann eina mark fyrri hálfleiks er hann kom Atlético yfir á 44. mínútu.
Borja Mayoral jafnaði fyrir Getafé á 53. mínútu en Álvaro Morata kom Atlético aftur yfir á 63. mínútu og sex mínútum síðar skoraði Griezmann sitt annað mark og þriðja mark Atlético.
Getafé neitaði hins vegar að gefast upp og Óscar Rodríguez minnkaði muninn í 3:2 á 87. mínútu og Borja Mayoral gerði sitt annað mark er hann jafnaði í 3:3 úr víti á þriðju mínútu uppbótartímans.
Atlético Madrid er í þriðja sæti deildarinnar með 35 stig, níu stigum á eftir toppliði Girona.