John Murtough, yfirmaður knattspyrnumála hjá enska félaginu Manchester United, segir stuðningsmönnum félagsins að þeir megi búast við rólegum félagaskiptaglugga í janúar.
Í ljósi refsinga á brotum félaga á fjármálareglum deildarinnar þarf félagið að passa sig og velja þá leikmenn vel sem félagið hyggst á að kaupa.
United hefur átt erfiða byrjun á tímabilinu en félagið endaði í síðasta sæti í A-riðli í Meistaradeild Evrópu og datt því úr Evrópukeppnum á tímabilinu. Liðið stendur í sjöunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar en náði þó góðum úrslitum gegn Liverpool um síðustu helgi.
Margir stuðningsmenn hafa kallað eftir að félagið kaupi nýja leikmenn í janúar til þess að reyna snúa genginu við en Murtough segir stuðningsmönnum að lækka væntingar sínar.
„Hvað félagaskiptagluggann í janúar varðar erum við ekki að búast við miklu, það er þó alltaf möguleiki á að finna leikmenn á góðu verði en við ætlum líka að skoða þá leikmenn innan félagsins sem vilja fá tækifæri í byrjunarliðinu. Við horfum ekki á janúar sem besta tímann til þess að fjárfesta í nýjum leikmönnum heldur höldum við áfram að undirbúa okkur fyrir félagaskiptagluggann næsta sumar“, sagði John Murtough í viðtali við Athletic á dögunum.
Manchester United fékk 45 milljón króna sekt síðasta sumar fyrir smávægileg brot á fjármálareglum deildarinnar en Everton fékk ögn harðari dóm fyrr á tímabilinu þegar enska úrvalsdeildin dró 10 stig af liðinu.