Liverpool í undanúrslit

Liverpool varð í kvöld síðasta liðið til að tryggja sæti sitt í undanúrslitum ensku deildabikarkeppninnar í fótbolta með 5:1-heimasigri á West Ham á Anfield.

Í gær tryggðu Fulham, Middlesbrough og Chelsea sér miða í hattinum góða en dregið verður eftir örfáar mínútur.

Kraftmikil byrjun og West Ham sá ekki til sólar

Liverpool byrjaði leikinn af krafti og stýrði fyrri hálfleik frá A-Ö. Fyrsta mark leiksins kom á 28. mínútu þegar ungverski miðvallarleikmaðurinn Dominik Szoboszlai hamraði boltanum í netið utan teigs eftir að Jarrell Quansah hafði gert vel í að brjóta niður skyndisókn gestanna.

Ekki voru fleiri mörk skoruð í fyrri hálfleik en Liverpool átti níu marktilraunir gegn einni gestanna í hálfleiknum.

Dominik Szoboszlai skoraði fyrsta mark Liverpool með bylmingsskoti utan teigs …
Dominik Szoboszlai skoraði fyrsta mark Liverpool með bylmingsskoti utan teigs á 28. mínútu. AFP

Liverpool sterkara á öllum sviðum

Seinni hálfleikur hófst eins og sá fyrri og Liverpool hélt yfirburðum sínum. Lið West Ham lék þó ögn betur og komst nokkrum sinnum í álitlegar stöður.

Annað mark leiksins kom á 56. mínútu þegar Darwin Núnez og Curtis Jones áttu gott þríhyrningaspil sem endaði með því að Núnez þræddi Jones inn fyrir vinstra megin í teignum og Jones kom boltanum undir Areola í marki West Ham og í netið.

Curtis Jones tvöfaldar forystu Liverpool í kvöld.
Curtis Jones tvöfaldar forystu Liverpool í kvöld. AFP

Liverpool komst í 3:0 á 71. mínútu þegar Ibrahima Konaté skeiðaði nær einn og óvaldaður upp völlinn og lagði boltann á Cody Gakpo. Gakpo lét skotið ríða af utan teigs og boltinn söng neðst í bláhorninu.

Cody Gakpo skorar þriðja mark Liverpool í kvöld.
Cody Gakpo skorar þriðja mark Liverpool í kvöld. AFP

Jarrod Bowen gerði vel í að hreinsa upp lausan bolta utarlega í vítateig Liverpool á 77. mínútu og skila honum upp í fjærhornið með fallegum snúning. Mohamed Salah kom gestunum niður á jörðina fimm mínútum síðar með góðu marki eftir skyndisókn. Leið 1 – langur fram á Salah sem gerði engin mistök einn gegn Areola.

Jarrod Bowen í baráttunni í kvöld. Hann minnkaði muninn í …
Jarrod Bowen í baráttunni í kvöld. Hann minnkaði muninn í 3:1 á 77. mínútu leiksins. AFP
Mohamed Salah kom inn á sem varamaður í seinni hálfleik …
Mohamed Salah kom inn á sem varamaður í seinni hálfleik og svaraði marki West Ham með fjórða marki Liverpool á 82. mínútu. AFP

Curtis Jones skoraði svo annað mark sitt og fimmta mark Liverpool á 84. mínútu eftir að hafa fengið að valsa óáreittur inn í vítateig gestanna.

Curtis Jones skorar annað mark sitt og fimmta mark Liverpool. …
Curtis Jones skorar annað mark sitt og fimmta mark Liverpool. Hann var valinn maður leiksins. AFP

Fjórum mínútum var bætt við venjulegan leiktíma en þær dugðu West Ham ekki til neins og öruggur sigur Liverpool varð staðreynd.

Mbl.is fylgdist með gangi mála og færði ykkur það helsta í beinni textalýsingu.  

Liverpool 5:1 West Ham opna loka
90. mín. Darwin Núnez (Liverpool) fær gult spjald Fer í harkalega tæklingu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka