Íslandsvinurinn mikli Sir Jim Ratcliffe mun á næstu vikum taka við stjórnartaumunum hjá enska knattspyrnufélaginu Manchester United. Mun það hafa í för með sér hinar ýmsu breytingar.
Sky Sports greinir frá því í dag að Ratcliffe vilji jákvæðara hugarfar innan félagsins og það sé honum ofarlega í huga að losna við leikmenn sem hafa slæm áhrif á andrúmsloftið innan félagsins.
Sóknarmaðurinn Jadon Sancho hefur verið í skammarkróknum hjá United frá því í byrjun tímabils eftir rifrildi við knattspyrnustjórann Erik ten Hag.
Samkvæmt enska miðlinum er Ratcliffe reiðubúinn að reka Sancho frá félaginu, þrátt fyrir að það gæti kostað skildinginn að borga upp samning leikmannsins.
Ku Ratcliffe vera hrifinn af vinnuaðferðum Arsenal, sem losaði sig við leikmenn á borð við Mesut Özil, Pierre-Emerick Aubameyang og Nicolás Pépé eftir vandræðagang á þeim félögum.