Portúgalinn Nuno Espírito Santo hefur verið ráðinn knattspyrnustjóri karlaliðs Nottingham Forest. Skrifaði hann undir tveggja og hálfs árs samning, sem rennur út sumarið 2026.
Nuno var síðast stjóri Al-Ittihad, meistara Sádi-Arabíu, en var látinn taka pokann sinn eftir slæmt gengi í byrjun nóvember.
Þar áður var hann rekinn frá Tottenham Hotspur eftir stutt stopp en bestum árangri náði hann með Wolverhampton Wanderers, sem Nuno stýrði á árunum 2017 til 2021 og festi í sessi sem stöðugt úrvalsdeildarlið.
Hann tekur við starfinu af Steve Cooper, sem var rekinn í gær eftir rúmlega tveggja ára starf.