Ungstirni Liverpool undir hnífinn

Ben Doak í leik með Liverpool gegn Toulouse í Evrópudeildinni …
Ben Doak í leik með Liverpool gegn Toulouse í Evrópudeildinni í síðasta mánuði. AFP/Charly Triballeau

Ben Doak, ungur knattspyrnumaður hjá Liverpool, þarf að gangast undir skurðaðgerð vegna meiðsla á hné.

Þessu greindi Pepijn Lijnders, aðstoðarþjálfari Liverpool, frá á fréttamannafundi í gær.

Doak er aðeins 18 ára gamall en hefur þegar spilað tíu leiki fyrir Liverpool í öllum keppnum, fimm á síðasta tímabili og fimm á yfirstandandi tímabili.

„Þetta er ekki gott. Hann reif liðþófa og þarf á aðgerð að halda. Hann verður frá í einhvern tíma. Hann er ungur strákur í góðu formi.

Hann er jákvæður strákur og mun því pottþétt koma sterkari til baka. Við þurfum á því að halda að hann snúi aftur af sama krafti og hann hefur sýnt með boltann. Hann getur tekið sér sinn tíma og við munum bíða eftir honum,“ sagði Lijnders.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka