Ratcliffe mættur á Old Trafford

Jim Ratcliffe er að ganga frá kaupum í 25 prósent …
Jim Ratcliffe er að ganga frá kaupum í 25 prósent eignahluti í Manchester United. AFP/Valery Hache

Jim Ratcliffe er mættur á Old Trafford í dag, í fyrsta skipti síðan tilkynnt var á aðfangadag að hann hefði staðfest kaup á 25 prósenta hlut í knattspyrnufélaginu Manchester United.

BBC skýrir frá þessu og segir að með í för séu Dave Brailsford og Jean-Claude Blance, sem verða báðir í stjórnendahlutverkum í félaginu eftir að kaup Ratcliffe ganga í gegn eftir sex til átta vikur.

Sagt er að þetta sé fyrsta heimsóknin af mörgum sem fyrirhugaðar séu næstu vikurnar til þess að undirbúa þær breytingar sem þeir hyggjast gera á innviðum Manchester United.

Ratcliffe, sem er 71 árs gamall, var metinn næstríkasti maður Bretlandseyja á árinu 2023 en hann er búsettur í Hampshire á suðausturhorni Englands ásamt því að vera með búsetu í Mónakó af skattalagaástæðum. 

Þá er hann vel þekktur á Íslandi sem stærsti landeigandi hérlendis og er talinn eiga um það bil eitt prósent af landinu, aðallega með jarðakaupum á Norðausturlandi. Þar á hann meðal annars jarðir við einar átta laxveiðiár, m.a. við Selá í Vopnafirði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert