Telur að Manchester City fái mjög harða refsingu

Manchester City hefur unnið ensku úrvalsdeildina fimm sinnum á undanförnum …
Manchester City hefur unnið ensku úrvalsdeildina fimm sinnum á undanförnum sex árum. AFP/Oli Scarff

„Manchester City á að hafa brotið 115 fjármálareglur og þeir hafa ekki verið samvinnufúsir með forráðamönnum ensku úrvalsdeildarinnar,“ sagði íþróttalögfræðingurinn Sigurður Ólafur Kjartansson í Fyrsta sætinu.

Í febrúar á síðasta ári tilkynnti enska úrvalsdeildin að deildin hefði ákveðið að kæra Englandsmeistara Manchester City fyrir 115 brot á fjármálareglum deildarinnar en rannsókn úrvalsdeildarinnar stóð yfir í fjögur ár.

Fordæmisgefandi fyrir önnur mál

„Þeir hafa verið að fela gögn líka og þetta snýst meðal annars um eyðslu um efni fram og launagreiðslur til þjálfara svo eitthvað sé nefnt,“ sagði Sigurður Ólafur.

„UEFA byrjaði að rannsaka þetta á sínum tíma en munurinn á UEFA og enska knattspyrnusambandinu er sá að brotin hjá UEFA fyrnast með tímanum en enska knattspyrnusambandið getur farið eins langt aftur í tímann og þeir vilja.

Eins þarf sönnunarbyrðin í málum hjá UEFA að koma löglega fram, það er ekki þannig hjá enska knattspyrnusambandinu og það skiptir engu máli hvaðan sönnunargögnin koma. Þetta er gríðarlega stórt mál og það verður líklegast dæmt í málinu sumarið 2025 ef réttarhöldin hefjast seint á þessu ári.

Ég held að þetta mál verði fordæmisgefandi fyrir önnur mál af svipuðum toga og ég tel að þeir verði dæmdur niður um deild, jafnvel deildir, þetta er bara það mikið sem þeir eru að fela,“ sagði Sigurður Ólafur meðal annars.

Umræðan um ensku úrvalsdeildina hefst á mínútu 27:00 en hægt er að hlusta á umræðuna í heild sinni í spil­ar­an­um hér fyr­ir ofan. Þátt­ur­inn er einnig aðgengi­leg­ur á öll­um helstu hlaðvarps­veit­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert