Völtuðu yfir botnliðið

Sheffield-menn niðurlútir eftir tapið í dag.
Sheffield-menn niðurlútir eftir tapið í dag. AFP

Sheffield United tók á móti Brighton & Hove Albion í dag í 25. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu. Sheffield var í stökustu vandræðum með gestina en Brighton vann leikinn 5:0.

Það verður seint sagt að leikurinn hafi verið jafn milli liða en Mason Holgate, leikmaður Sheffield United, var rekinn af velli á 12. mínútu leiksins og varð róðurinn því þungur fyrir heimamenn nánast allan leikinn. 

Einungis 8 mínútum eftir rauða spjaldið nýttu gestirnir í Brighton sér leikmannamuninn og skoruði Buonanotte fyrsta mark leiksins á 20. mínútu.

Fjórum mínútum síðar tvöfaldaði Welbeck forystuna. Heimamenn náðu eftir seinna markið að halda aðeins aftur að gestunum en á 75. mínútu opnuðust flóðgáttirnar á ný þegar Jack Robinson, leikmaður Sheffield, varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark og staðan orðin 3:0.

Gestirnir voru þó ekki hættir því þremur mínútum síðar skoraði Adingra sitt fyrsta mark í leiknum en hann skoraði svo aftur á 85. mínútu leiksins og kom gestunum í 5:0.

Fleiri urðu mörkin ekki og Sheffield áfram á botni deildarinnar með 13 stig en Brighton-menn nú komnir í sjöunda sæti deildarinnar með 38 stig, þremur stigum á eftir Manchester United í því sjötta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert