Liverpool fékk Luton í heimsókn á Anfield leikvanginn í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld. Eftir að hafa verið undir í hálfleik þá snéri Liverpool leiknum sér í hag og vann á endanum þægilegan sigur, 4:1.
Eftir leikinn er Liverpool enn á toppi deildarinnar með 60 stig, fjórum stigum á undan Manchester City en Luton er í 18. sæti, jafnt Everton að stigum með 20 stig.
Fyrir leik var ljóst að leikurinn yrði ekki auðveldur fyrir Liverpool en tólf leikmenn liðsins voru á meiðslalistanum, þ.á.m. Mohamed Salah, Darwin Nunez, Diogo Jota, Dominik Szoboszlai, Trent Alexander-Arnold og Alisson Becker.
Heimamenn byrjuðu mun betur fyrstu mínúturnar og virtist liðið vera staðráðið í að láta meiðslavandræðin ekki stoppa sig. Luis Diaz fékk fyrsta færið á 5. mínútur þegar hann fékk boltann rétt fyrir utan vítateig gestanna og náði skoti að marki sem fór rétt framhjá fjærstönginni.
Cody Gakpo átti bakfallsspyrnu að marki á 10. mínútu en skot hans fór beint í fangið á Thomas Kaminski, markverði Luton.
Það kom eins og þruma úr heiðskýru lofti þegar Chiedozie Ogbene kom gestunum í Luton yfir í leiknum á 12. mínútu. Tahith Chong átti þá skot að marki sem Caomihin Kelleher varði en frákastið barst til Ogbene sem skallaði boltann í autt markið og nýliðarnir í draumalandi.
Wataru Endo átti flotta fyrirgjöf á Luis Diaz á 32. mínútu en kólumbíski landsliðsmaðurinn þurfti að teygja sig í boltann og skot hans fór því framhjá markinu.
Liverpool liðið reyndi hvað það gat að jafna metin fyrir hálfleiksflautið en það gekk ekki upp og gengu gestirnir af velli með forskot í hálfleik, eitthvað sem fáir bjuggust við áður en leikurinn byrjaði.
Adam var hinsvegar ekki lengi í paradís hjá gestunum en á 56. mínútu jafnaði fyrirliði Liverpool, Virgil van Dijk, leikinn með frábæru skallamarki eftir hornspyrnu frá Alexis Mac Allister.
Mac Allister var búinn að leggja upp annað mark tveimur mínútum síðar en þá skoraði Cody Gakpo með góðum skalla eftir flotta fyrirgjöf argentínska landsliðsmannsins og heimamenn búnir að snúa leiknum sér í vil á tveimur mínútum.
Á 71. mínútu skoraði Luis Diaz þriðja mark Liverpool. Andrew Robertson, sem var nýkominn inn á völlinn sem varamaður, vann þá boltann hátt uppi á vellinum og sendi á Diaz. Kólumbíumaðurinn gerði engin mistök og kláraði færi sitt vel og gerði út um vonir nýliðanna í leiðinni.
Harvey Elliott skoraði svo fjórða mark heimamanna á 90. mínútu eftir að boltinn barst til hans inni í vítateig gestanna. Elliott gerði mjög vel og smellti boltanum upp í vinkilinn, óverjandi fyrir Kaminski í marki Luton.
Frábær endurkoma Liverpool eftir krefjandi fyrri hálfleik og fögnuðu Jürgen Klopp og hans menn vel í leikslok.
Næsti leikur Liverpool er um helgina þegar liðið spilar úrslitaleik deildabikarsins gegn Chelsea en Luton á heimaleik þriðjudaginn 27. febrúar gegn Manchester City í enska bikarnum.