Liverpool vann Southampton 3:0 í 16-liða úrslitum enska bikarsins á Anfield í kvöld og mætir fyrir vikið Manchester United á Old Trafford í átta liða úrslitunum.
Mörk Liverpool í kvöld skoruðu tveir ungir og efnilegir leikmenn en báðir voru þeir að skora sínu fyrstu mörk fyrir aðallið Liverpool.
Fyrsta markið skoraði hinn 18 ára gamli Lewis Koumas á 44. mínútu sem var sömuleiðis að spila sinn fyrsta leik fyrir aðallið Liverpool. Svo bætti Jayden Danns sem er einnig 18 ára gamall tveimur mörkum við í seinni hálfleik, það fyrra á 73. mínútu leiksins eftir góða sendingu frá Harvey Elliott og það seinna á 88. mínútu.
Það voru nú samt gestirnir sem byrjuðu betur á Anfield en strax eftir 30 sekúndur voru leikmenn Southampton búnir að setja boltann í netið en þar var á ferðinni Sekou Mara en hann var réttilega dæmdur rangstæður.
Aðeins fjórum mínum síðar átti svo Kamaldeen Sulemana skot í stöngina og strax í kjölfarið varði Caoimhin Kelleher virkilega vel frá Sekou Mara sem var í mjög góðu færi. Það var ekki fyrr en eftir rúmlega 20 mínútur að leikmenn Liverpool fóru að bíta frá sér en þá fékk Cody Gakpo fínt færi en hann náði ekki nægilega góðu skoti og Joe Lumley, markmaður Southampton, varði það örugglega.
Heimamenn tóku öll völd á vellinum eftir þetta en þeir náðu ekki að nýta sér það nægilega vel. Skyndisóknir Southampton voru þó hættulegar. Til dæmis fékk Kamaldeen Sulemana gott færi á 38. mínútu leiksins en þá hafði hann brunað upp vinstri kantinn en skot hans var vel varið af Kelleher. Pressan á gestina jókst þó í lok fyrri hálfleiks og eftir hornspyrnu á 42. mínútu barst boltinn á Harvey Elliott sem náði góðu skoti fyrir utan teiginn en Joe Lumley varði vel.
Aðeins tveimur mínútum síðar náði Liverpool svo forystu í leiknum en þá átti Bobby Clark góða sendingu á Lewis Koumas inn á teig Southampton og þar náði ungi og efnilegi leikmaður að snúa af sér varnarmenn Southampton og setja boltann í nærhornið. Virkilega smekklega gert hjá þessum flotta leikmanna sem var að spila sinn fyrsta leik fyrir Liverpool. Stuttu síðar átti Koumas fína sendingu á Gakpo en færið var þröngt og skotið fór framhjá.
Í seinni hálfleik byrjuðu gestirnir aftur betur og strax á 47. mínútu fékk Kamaldeen Sulemana gott færi en Kelleher náði að verja skot hans af stuttu færi. En síðan tóku heimamenn aftur yfir og munaði litlu að Cody Gakpo kæmi Liverpool í 2:0 á 52. mínútu en skotið fór framhjá. Það héldu þó flestir að Southampton væri að jafna metin á 68. mínútu en þá fékk Shea Charles boltann eftir hornspyrnu á fjarstöngina en þar var hann einn og óvaldaður en skot hans fór framhjá. Eftir þetta ógnuðu leikmenn Southampton ekki mikið.
Það var svo á 73. mínútu leiksins að Liverpool jók forystu sína en þá tapaði Will Smallbone boltanum illa og Harvey Elliott náði að nýta sér það og kom boltanum á hinn 18 ára gamla Jayden Danns sem kláraði færið sitt vel og kom Liverpool í 2:0. Danns skoraði svo aftur á 88. mínútu en þá fylgdi hann á eftir skoti Conor Bradley sem Joe Lumley varði. Lokastaðan á Anfield varð því 3:0 fyrir Liverpool og liðið komið í 8-liða úrslit ensku bikarkeppninni en þar mæta þeir Manchester United á Old Trafford.