Ten Hag: Markmið Forest að sparka í Fernandes

Bruno Fernandes tekinn hálstaki af Felipe í gærkvöldi.
Bruno Fernandes tekinn hálstaki af Felipe í gærkvöldi. AFP/Oli Scarff

Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, var verulega ósáttur við meðferðina á fyrirliðanum Bruno Fernandes í leik liðsins gegn Nottingham Forest í 16-liða úrslitum ensku bikarkeppninnar í gærkvöldi.

Fernandes var tæpur fyrir leikinn en lék hann þó allan. Man. United vann 1:0 með dramatísku sigurmarki Casemiro.

Ten Hag þótti sem leikmenn Forest væru viljandi að sparka í Fernandes og bölsótaðist einnig út í gagnrýni í garð Portúgalans á samfélagsmiðlum.

„Það sást að Forest var með hann sem skotmark. Ég ætla ekki að segja hverju hann þjáist af en þetta eru alvarleg meiðsli.

Þegar ég sé hversu alvarleg meiðslin voru og gagnrýnina í hans garð á samfélagsmiðlum finnst mér það ömurlegt, þetta getur ekki verið,“ sagði hollenski stjórinn.

Alvarlega meiddur

„Hann er alvarlega meiddur en hélt áfram að spila á laugardag. Hann barðist fyrir því að spila þennan leik. Hann er með mjög háan sársaukaþröskuld.

Á síðasta ári gerði hann nokkuð svipað sem sýnir leiðtogahæfni hans. Þetta er mjög góður kostur hjá leiðtoga og flæðir inn í liðið,“ bætti ten Hag við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert