Endurkomusigur City í grannaslagnum

Phil Foden fagnar jöfnunarmarkinu.
Phil Foden fagnar jöfnunarmarkinu. AFP/Paul Ellis

Manchester City vann í dag 3:1-heimasigur á Manchester United í grannaslag í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta. City er nú með 62 stig, einu stigi minna en topplið Liverpool. United er í sjötta með 44 stig.

City byrjaði af krafti, náði í tvö horn í upphafi leiks og komust gestirnir í United lítið yfir miðju.

Það var því eins og þruma úr heiðskíru lofti þegar Marcus Rashford kom United yfir með stórkostlegu marki á 8. mínútu. Bruno Fernandes lagði þá boltann á Rashford sem hamraði hann í slána og inn af 25 metra færi.

Alejandro Garnacho og Marcus Rashford fagna fyrsta marki leiksins.
Alejandro Garnacho og Marcus Rashford fagna fyrsta marki leiksins. AFP/Paul Ellis

Yfirburðir City á vellinum héldu áfram eftir markið og fór leikurinn nánast allur fram á vallarhelmingi United.

Phil Foden fékk gott færi til að jafna á 19. mínútu er hann slapp einn í gegn en André Onana í marki United gerði glæsilega í að verja.

Sókn City hélt áfram, en illa gekk að skapa mörg færi. Heimamenn fengu þó sannkallað dauðafæri í uppbótartíma fyrri hálfleiks þegar Erling Haaland skaut yfir af stuttu færi með galopið mark fyrir framan sig eftir skalla Foden fyrir markið.

United slapp með skrekkinn og staðan í leikhléi var 1:0. Þannig var hún fram að 56. mínútu þegar Foden jafnaði með glæsilegu skoti upp í samskeytin utan teigs.

City var með öll tök á vellinum eftir það og komst loks yfir á 80. mínútu þegar Foden slapp í gegn eftir spil við varamanninn Julián Álvarez og skoraði sitt annað mark og annað mark City.

Haaland bætti svo við þriðja markinu í uppbótartíma er hann slapp í gegn eftir sendingu frá Rodri og þar við sat.

Man. City 3:1 Man. United opna loka
90. mín. Kevin De Bruyne (Man. City) á skot framhjá +1 - Nálægt því að klára þetta. Leggur boltann innanfótar utan teigs, hársbreidd framhjá fjærstönginni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert