Brentford heldur áfram að tapa stigum

Úr leik Luton Town og Nottingham Forest í dag.
Úr leik Luton Town og Nottingham Forest í dag. AFP

Tveir leikir í ensku úrvalsdeildinni hófust klukkan 15.00 í dag, leikur Burnley og Brentford og leikur Luton gegn Nottingham Forest. 

Burnley bar sigur úr býtum gegn Brentford, 2:1, en það dró snemma til tíðinda í leiknum þar sem Sergi Reguilon fékk að líta rauða spjaldið á 9. mínútu leiksins fyrir brot inni í vítateignum.

Jacob Bruun Larsen fór á punktinn og kom Burnley-mönnum yfir á 10. mínútunni og var það eina mark fyrri hálfleiksins. Bæði lið fengu þó góð færi í fyrri hálfleiknum en hvorugu liðinu tókst að skora eftir þetta fyrsta mark.

Í seinni hálfleiknum lifnaði þó aðeins yfir liðunum og tvöfaldaði David Datro Fofana forrystuna fyrir heimamenn á 62. mínútu leiksins. Varnarmaður Brentford, Kristoffer Ajer, minnkaði þó muninn fyrir gestina á 83. mínútu leiksins.

Fyrir leik höfðu Brentford-menn tapaði sjö af síðustu tíu leikjum og heldur því slæmt gengi liðsins áfram en liðið er nú einungis fjórum stigum frá fallsætum deildarinnar en Burnley sótti þrjú dýrmæt stig og er nú fimm stigum á eftir Luton Town sem er í 18. sæti.

Luton Town og Nottingham Forest gerðu 1:1 jafntefli í fallbaráttunni en eftir leikinn er Nottingham Forest nú með þriggja stiga forskot á Luton Town sem situr í 18. sæti deildarinnar og í fallsæti.

Chris Wood kom gestunum í Nottingham Forest yfir á 34. mínútu leiksins og stefndi allt í sigur gestanna þar til Luke Berry jafnaði metin fyrir Luton Town með marki eftir hornspyrnu á lokamínútum leiksins og tryggði heimamönnum eitt stig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert