Toppliðin unnu öll og Ipswich efst

Enzo Maresca, knattspyrnustjóri Leicester, sem hefur gefið mikið eftir seinni …
Enzo Maresca, knattspyrnustjóri Leicester, sem hefur gefið mikið eftir seinni hluta tímabilsins. AFP/Glyn Kirk

Ipswich Town trónir á toppi ensku B-deildarinnar í knattspyrnu eftir sigur á Southampton, 3:2, í stórleik páskahelgarinnar í deildinni sem fram fór síðdegis.

Leicester komst í efsta sætið snemma í dag með sigri á Norwich, 3:1. Ipswich náði síðan efsta sætinu af Leicester, sem síðan datt niður í þriðja sætið í lokaleik kvöldsins en þá vann Leeds sigur á Hull, 3:1.

Ipswich er því með 87 stig, Leeds 86 og Leicester 85 en Southampton dregst enn frekar aftur úr með 74 stig í fjórða sætinu. Southampton á þó tvo leiki til góða á Ipswich og Leeds og Leicester á leik til góða og er því með fæst töpuð stig.

Tvö efstu liðin komast beint í úrvalsdeildina en liðin í þriðja til sjötta sæti fara í umspil. WBA og Norwich eru núna í hinum tveimur umspilssætunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka