Manchester United mætir grönnum sínum í Manchester City í úrslitaleik enska bikarsins. United lagði B-deildarlið Coventry af velli eftir vítaspyrnukeppni í ótrúlegum leik í undanúrslitum í dag, á Wembley-vellinum í London.
United komst í 3:0 í leiknum og virtist leiknum vera svo gott sem lokið en þá kom ótrúleg endurkoma frá Coventry sem náði að jafna í 3:3. Leikurinn fór í framlengingu og svo vítaspyrnukeppni en að lokum var það United sem hafði betur.
Fyrri hálfleikurinn var ekki sá fjörugasti en eins og við mátti búast lá Coventry-liðið til baka og reyndi að beita skyndisóknum þegar færi gáfust til. United var mun meira með boltann og á 23. mínútu kom Scott McTominay liðinu yfir. Diogo Dalot átti þá mjög góða fyrirgjöf frá hægri inn á markteiginn þar sem McTominay var mættur og ýtti boltanum yfir línuna af stuttu færi.
Coventry hélt sama leikskipulagi þrátt yfir að lenda undir og í raun fékk United ekkert ofboðslega mörg færi. Í uppbótartíma fyrri hálfleiks fékk hins vega Harry Maguire frían skalla eftir hornspyrnu og átti ekki í neinum vandræðum með að koma sínum mönnum í 2:0.
Þegar síðari hálfleikur var rétt tæplega korters gamall skoraði Bruno Fernandes svo þriðja mark United og gerði þar með út um leikinn. Hann fékk boltann þá nokkuð óvænt í teignum eftir klaufagang í vörn Coventry og smellti honum í netið með smá viðkomu af Bobby Thomas varnarmanni Coventry.
Á 71. mínútu náði Coventry þó að minnka muninn. Ellis Simms fékk þá góða fyrirgjöf frá varamanninum Fábio Tavares og kláraði mjög vel niðri í nærhornið. Varnarleikur United í markinu var kannski ekki til útflutnings en Simms var algjörlega einn á teignum í færinu.
Sjö mínútum síðar minnkaði Coventry muninn svo enn frekar. Callum O’Hare fékk boltann þá fyrir utan teig og lét vaða en skotið fór af bakinu á Aaron Wan-Bissaka, hátt upp í loftið og svo í vinstra hornið. André Onana fipaðist þegar skotið fór af Wan-Bissaka og stóð eftir frosinn á línunni þegar boltinn breytti um stefnu.
Á 85. mínútu mátti engu muna að Coventry næði að fullkomna endurkomuna og jafna metin. Varamaðurinn Victor Torp átti þá bylmingsskot úr D-boganum en Onana sá við honum með góðri markvörslu. Torp tók boltann á lofti og náði gífurlega föstu skoti, en náði ekki að setja hann nægilega mikið út við stöng.
Í uppbótartíma tókst Coventry hins vegar hið ómögulega. Liðið fékk þá vítaspyrnu eftir að boltinn fór í höndina á Aaron Wan-Bissaka og Haji Wright skoraði af miklu öryggi úr spyrnunni. Ótrúleg endurkoma B-deildarliðsins sem virtist vera algjörlega úr leik í stöðunni 3:0.
Fleiri urðu mörkin ekki í venjulegum leiktíma og því var gripið til framlengingar. Bruno Fernandes átti bestu tilraun fyrri hálfleiks framlengingarinnar á 95. mínútu en hörkuskot hans frá vítateigslínu fór í þverslánna og niður.
Coventry fékk svo tvö bestu færi síðari hálfleiks framlengingarinnar en eftir frábærlega útfærða skyndisókn á 113. mínútu galopnaðist allt vinstra megin fyrir markaskorarann Haji Wright en skot hans úr góðu færi í teignum fór framhjá fjærstönginni. Skömmu síðar hamraði Ellis Simms svo boltanum í þverslánna og niður af mjög stuttu færi en þar mátti hreinlega engu muna að sigurmarkið kæmi.
Á lokamínútunni héldu Coventry-menn svo að þeir væru búnir að vinna leikinn. Victor Torp skoraði að því er virtist löglegt mark en við VAR-skoðun kom í ljóst að Haji Wright væri rangstæður í aðdraganda marksins. Því var farið í vítaspyrnukeppni að loknum 120 mínútum.
Casemiro lét verja frá sér úr fyrstu spyrnu United í keppninni en Andre Onana varði frá Callum O’Hare ásamt því að fyrirliðinn Ben Sheaf skaut langt yfir. Diogo Dalot, Christian Eriksen, Bruno Fernandes og Rasmus Höjlund skoruðu allir úr sínum spyrnum.
Það verður því endurtekning á úrslitaleiknum frá því í fyrra, Manchester-borgar slagur.