Klopp líst vel á Slot

Arne Slot, knattspyrnustjóri Feyenoord.
Arne Slot, knattspyrnustjóri Feyenoord. AFP/Maurice van Steen

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóra Liverpool, líst vel á þann möguleika að Hollendingurinn Arne Slot taki við af sér í sumar.

Slot, sem er knattspyrnustjóri Feyenoord, hefur tjáð sig opinberlega um að hann sé áhugasamur um að taka við Liverpool og að hann sé bjartsýnn á að félögin nái saman.

„Ég er ekki hluti af ferlinu en mér líkar ýmislegt við þetta ef hann er sá eini rétti og vill taka starfið að sér. Ég kann að meta hvernig liðið hans spilar fótbolta.

Allt sem ég hef heyrt um hann sem manneskju er af hinu góða, hann er góður gaur. Fólk sem ég þekki þekkir hann. Ég þekki hann ekki en fólk sem þekkir hann segir hann vera góðan gaur.

Ég kann vel að meta það. Góður þjálfari, góður gaur. Ef hann reynist lausnin, ef hann er maðurinn fyrir félagið er ég mjög ánægður,“ sagði Klopp á fréttamannafundi í dag.

Liverpool heimsækir West Ham United í hádeginu á morgun í ensku úrvalsdeildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert