Sheffield United féll úr ensku úrvalsdeildinni í dag en liðið steinlá 5:1 fyrir Newcastle á St. James' Park. Staða Luton er svört eftir tap gegn Wolves.
Sheffield komst yfir á fimmtu mínútu gegn Newcastle í dag með marki Anel Ahmedhodzic eftir hornspyrnu. Alexander Isak jafnaði metin fyrir Newcastle og staðan var jöfn í hálfleik 1:1. Í síðari hálfleik tók Newcastle öll völd á vellinum og skoruðu fjögur mörk. Bruno Guimares var fyrstur að verki og Isak bætti við öðru marki sínu og þriðja marki heimamanna af vítapunktinum.
Gestirnir kórónuðu martröðina með sjálfsmarki Ben Osborn áður en Callum Wilson rak síðasta naglann í líkkistu Sheffield United sem eru fallnir eftir úrslit dagsins eftir aðeins eins árs veru í úrvalsdeildinni.
Luton heimsótti Wolves á Molineux og tapaði í spennandi leik. Hee-Chan Hwang og Toti Gomes komu heimamönnum í 2:0 áður en Carlton Morris minnkaði muninn fyrir Luton, tíu mínútum fyrir leikslok. Luton lögðu allt í sölurnar á lokamínútum leiksins en allt kom fyrir ekki og tækifærum Luton til að komast upp úr fallsæti fer ört fækkandi.
Fulham og Crystal Palace gerðu 1:1 jafntefli á Craven Cottage í London. Rodrigo Muniz kom Fulham yfir en gestirnir frá suður Lundúnum jöfnuðu með marki Jeffrey Schlupp undir lok leiksins. Fulham er eftir leikinn í 13. sæti, einu ofar en Palace í 14.