Rob Edwards, knattspyrnustjóri Luton Town, segir notkun VAR myndbandsdómgæslu í ensku úrvalsdeildinni hafa lækkað í áliti hjá honum eftir því sem liðið hefur á tímabilið.
Í samtali við Sky Sports var Edwards spurður út í ummæli Ange Postecoglou, knattspyrnustjóra Tottenham Hotspur, sem sagðist á fréttamannafundi vilja flytja til Svíþjóðar eftir að honum var tjáð að í úrvalsdeildinni þar í landi væri ekki notast við VAR.
„Ég kann mjög vel við Ange þannig að ég þarf kannski að fara með honum! Í upphafi tímabils var ég líkast til á þeim stað að ég studdi við notkun myndbandsdómgæslunnar.
Eftir því sem hefur liðið á tímabilið er ég ekki alveg viss. Maður er ekki viss um hvort maður geti fagnað marki lengur. Þetta hægir svo mikið á hlutunum og samt sem áður fáum við kannski ekki réttu ákvarðanirnar.
Ég tel það ekki líklegt að þetta sé að fara neitt, við höfum notast við myndbandsdómgæslu um skeið og munum halda áfram að vinna með svona dómgæslu og reyna að bæta hana.
En ég skil fullkomlega hvað hann [Postecoglou] er að fara,“ svaraði Edwards.