Íslensk glímutök í Luton (myndskeið)

Teden Mengi gerði sig sekan um ótrúleg mistök þegar hann hélt Jarrad Branthwaite innan vítateigs og fékk dæmda á sig vítaspyrnu í jafntefli Luton Town og Everton, 1:1, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld.

Tilburðirnir minntu frekar á íslensk glímutök en eitthvað tengt knattspyrnu og þó dómari leiksins hafi misst af atvikinu fékk hann ábendingu úr VAR-herberginu um að líta nánar á augljóst brot Mengis.

Dominic Calvert-Lewin steig á vítapunktinn og skoraði með skoti beint á markið þó Thomas Kaminski hafi verið nálægt því að verja með fótunum.

Elijah Adebayo jafnaði metin fyrir Luton þar sem hann sýndi gífurlegan líkamlegan styrk sinn og kom boltanum framhjá Jordan Pickford í marki Everton.

Vítaspyrnudóminn og mörkin tvö má sjá í spilaranum hér að ofan en mbl.is færir ykkur efni úr enska boltanum í samstarfi við Símann Sport.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert