Chelsea fór illa með West Ham

Leikmenn Chelsea fagna fimmta marki Chelsea sem Nicolas Jackson skoraði.
Leikmenn Chelsea fagna fimmta marki Chelsea sem Nicolas Jackson skoraði. AFP/Henry Nicholls

Chelsea valtaði yfir West Ham í ensku úrvalsdeild karla í knattspyrnu í dag. Leikurinn endaði 5:0 fyrir Chelsea á heimavelli.

Cole Palmer skoraði fyrsta mark leiksins þegar stundarfjórðungur var liðinn og Conor Gallagher kom Chelsea í 2:0 á 30. mínútu. 

Noni Madueke skoraði svo þriðja mark Chelsea eftir stoðsendingu frá Thiago Silva og staðan var 3:0 í hálfleik.

Nicolas Jackson skoraði svo fjórða mark Chelsea þegar aðeins þrjár mínútur voru liðnar af seinni hálfleik og setti svo annað á 80. mínútu.

Jarrod Bowen skaut þrisvar sinnum í tréverkið og hefði auðveldlega getað minnkað muninn en það tókst ekki.

Chelsea er nú í sjöunda sæti í deildinni með 54 stig og West Ham í níunda með 49 stig.

Brighton hafði betur gegn Aston villa á heimavelli, 1:0 en Joao Pedro skoraði sigurmarkið á 87. mínútu. Robin Olsen varði vítaspyrnu frá honum en Pedro náði frákastinu og skoraði.

Aston Villa er enn í fjórða sæti, Meistaradeildarsæti, með 67 stig þrátt fyrir tapið. Brighton er í 11. sæti með 47 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert