JJ Redick er orðaður við þjálfarastarf Los Angeles Lakers í NBA deildinni í körfubolta en félagið sagði Darvin Ham upp störfum á dögunum. Lakers féll úr keppni í átta liða úrslitum gegn Denver Nuggets.
Redick spilaði meðal annars fyrir Orlando Magic og LA Clippers á fimmtán ára ferli sínum í deildinni en hefur starfað sem sérfræðingur um NBA í sjónvarpi síðan skórnir fóru á hilluna. Redick heldur einnig úti hlaðvarpinu Mind the Game Pod með LeBron James, leikmanni Lakers, þar sem þeir ræða körfubolta af mikilli þekkingu.
Lakers munu samkvæmt fjölmiðlum vestanhafs ræða við þó nokkra kandídata en Redick er þar á meðal ásamt Sam Cassell, aðstoðarþjálfara Boston Celtics og James Borrego, astoðarþjálfara New Orleans Pelicans.
Lakers eru taldir ætla að tala við töluvert marga og gefa sér góðan tíma í ferlið en þjálfarar liðsins eru yfirleitt ekki langlífir í starfi ef þeir vinna ekki titla.