Ten Hag býður Slot velkominn

Erik ten Hag með FA bikarinn
Erik ten Hag með FA bikarinn AFP/Ben Stansall

Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United fagnar komu Arne Slot til Liverpool og segir það gott fyrir þjálfarastéttina í Hollandi. Hann bendir á að Slot taki við félagi í betri stöðu en ten Hag sjálfur þegar hann tók við Manchester United.

Ten Hag er í góðum gír þessa dagana eftir glæstan sigur á Manchester City í úrslitum enska bikarsins á laugardaginn þar sem United sigraði nágranna sína verðskuldað, 2:1. Ten Hag óspart bent á að United hafi ekki verið á góðum stað þegar hann tók við starfinu fyrir tveimur árum síðan.

„Jürgen Klopp og Pep Lijnders hafa byggt sterkan grunn hjá Liverpool. Slot verður í betra umhverfi en ég þegar ég tók við Manchester United þegar kemur að innviðum félagsins og jafnvægi leikmannahópsins.“

Manchester United hafnaði í áttunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar og þrátt fyrir bikarmeistaratitilinn er ekki talið öruggt að ten Hag verði knattspyrnustjóri Rauðu djöflanna á næsta tímabili og hafa Gareth Southgate og Kieran McKenna verið orðaðir við starfið að undanförnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert