Enska knattspyrnufélagið Burnley gæti ráðið Frank Lampard sem nýjan knattspyrnustjóra en Vincent Kompany yfirgaf félagið í vikunni til að taka við Bayern München.
The Athletic greinir frá í dag að Lampard sé einn þeirra stjóra sem Burnley sé að skoða en liðið féll úr ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð og leikur í B-deildinni á komandi tímabili.
Lampard hefur verið án starfs síðan hann yfirgaf Chelsea í annað sinn sem stjóri í maí á síðasta ári. Vann Chelsea-liðið þá aðeins einn af ellefu leikjum undir stjórn Englendingsins.
Þar á undan var hann með 27 prósent sigurhlutfall hjá Everton frá janúar 2022 til janúar 2023. Steve Cooper fyrrverandi stjóri Nottingham Forest var einnig orðaður við starfið en hann hefur ekki áhuga sem stendur.
Lampard hefur einnig stýrt Derby County og var nálægt því að koma liðinu upp í ensku úrvalsdeildina tímabilið 2018/19.