Vilja Brassann í lífstíðarbann

Fer Lucas Paquetá í lífstíðarbann?
Fer Lucas Paquetá í lífstíðarbann? AFP/Pierre-Philippe Marcou

Enska knattspyrnusambandið vill banna Brasilíumanninum Lucas Paquetá, miðjumanni West Ham, að spila atvinnumannafótbolta í landinu ævilangt fyr­ir brot á veðmála­regl­um sambandsins.

Paqu­etá er gefið að sök að hafa reynt að hafa áhrif á fram­vindu eða at­vik í til­tekn­um leikj­um með því að leit­ast eft­ir því að fá vilj­andi gult spjald frá dóm­ar­an­um með þeim óviðeig­andi hætti að hafa áhrif á veðmála­markaðinn, með það fyr­ir aug­um að einn eða fleiri aðilar gætu hagn­ast á veðmál­um.

Sam­bandið hef­ur und­an­farna tíu mánuði haft til rann­sókn­ar fjög­ur grun­sam­leg gul spjöld sem bras­il­íski landsliðsmaður­inn fékk í leikj­um með West Ham.

Paquetá neitar sök. 

Alvarlegra brot

Fyrst greindu enskir miðlar frá því að Lucas Paquetá gæti fengið tíu ára bann frá fótbolta en fordæmi hafa verið fyrir því. 

Kynan Isaac hjá Stratford United fékk tíu ára bann fyrir að veðja á að hann sjálfur fengi gult spjald. 

Hins vegar greinir The Sun frá því að enska knattspyrnusambandinu finnist brot Paquetá vera alvarlegra. 

Samkvæmt miðlinum veðjuðu sextíu manns á að Paquetá myndi fá gult spjald í einum eða öllum fjórum leikjunum. Voru upphæðirnar á bilinu 7 til 400 pund. Alls græddi fólkið yfir 100 þúsund pund. 

Öll veðmálin fóru fram á lítilli eyju rétt fyrir utan borgina Ríó í Brasilíu. 

Búist er við að málið taki langan tíma. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert