Evertonmaðurinn á leið til United

Jarrad Branthwaite virðist vera á leið til Manchester United.
Jarrad Branthwaite virðist vera á leið til Manchester United. AFP/Paul Ellis

Enska knattspyrnufélagið Manchester United er langt komið með að tryggja sér varnarmanninn efnilega Jarrad Branthwaite frá Everton.

The Times skýrir frá því í kvöld að forráðamenn United séu búnir að komast að samkomulagi við umboðsmenn varnarmannsins um kaup og kjör en eigi eftir að ná samningum við Everton um kaupverðið.

Talið er að Everton vilji fá um 70-80 milljónir punda fyrir Branthwaite sem þótti einn af bestu varnarmönnum úrvalsdeildarinnar í vetur og það kom mörgum á óvart þegar hann var ekki valinn í endanlegan landsliðshóp Englendinga fyrir EM í Þýskalandi.

Branthwaite verður 22 ára síðar í þessum mánuði en hann kom til Everton frá Carlisle fyrir fjórum árum og hefur tvívegis verið lánaður, fyrst til Blackburn í B-deildinni og síðan til PSV Eindhoven í Hollandi þar sem hann lék tímabilið 2022-23.

Branthwaite á að baki 45 úrvalsdeildarleiki fyrir Everton, 35 þeirra á síðasta tímabili, og hefur skorað í þeim fjögur mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert