„Biðin er á enda, Stefán er okkar“

Stefán Teitur í leik með íslenska landsliðinu.
Stefán Teitur í leik með íslenska landsliðinu. AFP/Henry Nicholls

Enska knattspyrnufélagið Preston North End tilkynnti í dag Stefán Teit Þórðarson sem nýjan leikmann félagsins í dag.

Hann samdi við Preston til þriggja ára. Mbl.is greindi frá því á sunnudaginn að Stefán færi til Preston en félagið kynnti hann til leiks í dag. Preston er í ensku B-deildinni og lenti í 10. sæti á síðasta tímabili.

„Ég er mjög ánægður. Ég er mjög stoltur af mér og fjölskyldu minni að vera að ganga til liðs við svona stórt félag, þetta er draumur.

B-deild á Englandi er ein af deildunum sem ég hef haft augastað á og að spila fyrir félag eins og Preston eru forréttindi,“ sagði Stefán í tilkynningu liðsins.

Stefán er 25 ára miðjumaður og kemur til liðsins frá Silkeborg í Danmörku þar sem hann spilaði rúmlega 100 leiki, skoraði 11 mörk og varð bikarmeistari.

 „Njósnarar okkar tóku eftir Stefáni og við höfum verið að fylgjast vel með honum.

Ég talaði við hann og sagði honum hvernig hann passar inn í liðið okkar og hann var mjög spenntur.

Við vissum að önnur lið í deildinni væru að fylgjast með honum svo það er frábært að hann valdi okkur.

Við gerðum allt sem við gátum til þess að fá hann til okkar. Eins og fólk hefur séð á myndböndum á samfélagsmiðlum þá er hann kraftmikill og sterkur og mun gefa okkur mikið,“ sagði Ryan Lowe, knattspyrnustjóri félagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert