Ipswich, nýliðar í ensku úrvalsdeildinni, hafa náð samkomulagi við Burnley um kaup á kósovóska markmanninum Arijanet Muric.
Ipswich mun greiða 10 milljónir punda fyrir Muric og mun hann fara í læknisskoðun á næstunni.
Muric var aðalmarkvörður Burnley er liðið fór upp um deild tímabilið 2022-23. Hann missti síðan stöðuna í rammanum eftir að félagið sótti James Trafford en náði að vinna sig í byrjunarliðið undir lok síðustu leiktíðar.
Kósovómaðurinn verður fimmtu kaup Ipswich á tímabilinu en liðið tilkynnti fyrr í dag kaupin á Liam Delap frá Manchester City.