Keyptur til City fyrir 34 milljónir punda

Savinho, til hægri, eftir að Brasilía féll út úr Ameríkubikarnum …
Savinho, til hægri, eftir að Brasilía féll út úr Ameríkubikarnum í sumar. AFP/Ethan Miller

Englandsmeistarar Manchester City hafa gengið frá kaupum á brasilíska kantmanninum Savinho frá Troyes í Frakklandi fyrir tæpar 34 milljónir punda.

Hann er tvítugur að aldri og hefur samið við City til fimm ára. Hann lék sem lánsmaður með Girona á Spáni á síðasta tímabili, en bæði Troyes og Girona tilheyra sama fyrirtækinu, City Football Group.

Þar skoraði Savinho, sem einnig gengur undir nafninu Sávio, 11 mörk og átti 10 stoðsendingar í öllum mótum en Girona kom mjög á óvart og endaði í þriðja sæti spænsku 1. deildarinnar, á eftir Real Madrid og Barcelona.

Hann hefur einnig leikið sem lánsmaður með PSV Eindhoven í Hollandi en spilaði aldrei deildarleik fyrir  Troyes á tveimur árum sem hann var í röðum franska félagsins.

Savinho er þegar kominn í A-landslið Brasilíu og hefur leikið sjö leiki þar sem hann hefur skorað eitt mark, en það gerði hann gegn Paragvæ í Ameríkubikarnum fyrr í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert