Liverpool sendir frá sér yfirlýsingu

Liverpool er eitt stærsta lið Englands.
Liverpool er eitt stærsta lið Englands. AFP/Oli Scarff

Enska knattspyrnufélagið Liverpool hefur sent frá sér yfirlýsingu eftir að leikmaður U18 ára karlaliðs félagsins varð fyrir kynþáttafordómum samkvæmt Liverpool. 

Liverpool-liðið gekk af velli tvisvar á tveimur dögum, fyrst eftir leik gegn Hoffenheim og síðan eftir leik gegn Frankfurt. 

Í báðum tilvikum átti sami leikmaður liðsins að hafa orðið fyrir kynþáttafordómum af hálfu andstæðinganna. 

Timmo Hardung íþróttastjóri Frankfurt þvertók fyrir það að um kynþáttafordóma væri að ræða. Hann sagði að um misskilning væri að ræða.

Erum stolt af okkar leikmanni

Liverpool sendi frá sér yfirlýsingu eftir atvikin:

Liverpool getur staðfest að leikmaður U18 ára liðs félagsins sagðist hafa orðið fyrir kynþáttafordómum af hálfu andstæðings þegar hann spilaði á unglingamóti í Þýskalandi á föstudaginn. 

Leikmaðurinn lét dómarann, liðsfélaga og þjálfarateymið vita strax. Þar af leiðandi ákváðu þjálfarar Liverpool að ganga af velli og hætta leiknum. 

Degi síðar var sami leikmaður aftur fyrir kynþáttafordómum af hálfu mótherja. Hann lét þjálfarateymið og liðsfélaga vita af því aftur og ákváðu þeir að ganga af vellinum á ný. 

Við erum stolt af leikmanninum okkar fyrir skjót viðbrögð hans við atvikinu og fyrir að sýna mikinn þroska. 

Hann sem og liðsfélagar fundu fyrir miklum áhrifum af þessum atvikum. Stuðningsteymi akademíunnar mun nú styðja við þá. 

Við óskum eftir því að andstæðingar okkar sem og móthaldarar rannsaki atvikin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert