Onana sá níundi hjá Aston Villa

Amadou Onana er öflugur varnartengiliður sem á að styrkja miðjuna …
Amadou Onana er öflugur varnartengiliður sem á að styrkja miðjuna hjá Aston Villa. AFP/Adrian Dennis

Níu leikmenn eru komnir til enska knattspyrnuliðsins Aston Villa í sumar eftir að félagið keypti í dag belgíska miðjumanninninn Amadou Onana af Everton fyrir 50 milljónir punda.

Onana er sá dýrasti en Villa greiddi Chelsea 35 milljónir fyrir hollenska bakvörðinn Ian Maatsen og 20 milljónir fyrir kantmanninn Jaden Philogene frá Hull.

Aðrir sem hafa bæst við eru Ross Barkley frá Luton, Cameron Archer frá Sheffield United, Samuel Iling-Junior og Enzo Barranechea frá Juventus og Lewis Dobbin frá Everton, auk þess sem Leander Dendoncker sneri aftur frá Napoli eftir lánsdvöl.

Douglas Luiz er eini af fastamönnum Aston Villa sem hefur verið seldur í sumar en félagið fékk fyrir hann 50 milljónir punda frá Juventus. Moussa Diaby er væntanlega á förum frá Villa til Sádi-Arabíu.

Unai Emery er að styrkja hópinn fyrir þátttöku í Meistaradeildinni í vetur en þar hefur Villa ekki leikið í meira en 40 ár, eða  síðan félagið lék í Evrópukeppni meistaraliða tímabilið 1982-1983.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert