Rifist um hver fær hvað af sölunni

Riccardo Calafiori er á leið til Arsenal.
Riccardo Calafiori er á leið til Arsenal. AFP/Ina Fassbender

Allt bendir til þess að Arsenal kaupi ítalska knattspyrnumanninn Riccardo Calafiori af Bologna fyrir um 50 milljónir evra, rúmar 40 milljónir punda, en nú er deilt um hverjir eigi að fá hvað af kaupverði varnarmannsins öfluga.

Calafiori kemur frá Bologna en bæði Basel í Sviss og Roma frá Ítalíu gera tilkall til hluta fjárins. Calafiori, sem er 22 ára gamall og lék með Ítölum á EM í sumar, er uppalinn hjá Roma en fór þaðan til Basel fyrir tveimur árum og síðan til Bologna eftir eitt tímabil þar.

Basel var með klásúlu í samningnum þegar Calafiori var seldur til Bologna um að fá 50 prósent af kaupverðinu. Forráðamenn Roma segja nú að Basel skuldi þeim átta milljónir evra, þar sem þeir hafi átt að fá hlut af sölu leikmannsins til Bologna, og síðan hlut af sölunni ef hann yrði seldur þaðan.

Sjálfur er Calafiori mættur í læknisskoðun til London og bíður þess að leyst verði úr flækjunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert