Gareth Barry, leikjahæsti leikmaðurinn í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu frá stofnun hennar árið 1992, hefur tekið fram skóna á ný eftir meira en fimm ára hlé.
Barry er 43 ára gamall og lauk ferlinum með WBA í ensku B-deildinni árið 2020, eftir að hafa leikið í 20 ár samfleytt í úrvalsdeildinni og spilað þar 653 leiki með Aston Villa, Manchester City, Everton og WBA. Þá lék hann 53 landsleiki fyrir England.
Í dag tilkynnti áhugamannaliðið Hurstpierpoint, frá samnefndum bæ í Vestur-Sussex, skammt sunnan við London, að Barry væri orðinn leikmaður félagsins og birti mynd af honum með keppnistreyju Hurstpierpoint.
Félagið leikur í héraðsdeild í Sussex sem er tólfta efsta deild á Englandi. „Við erum yfir okkur stoltir af því að tilkynna að fyrrverandi landsliðsmaður Englands og handhafi leikjametsins í úrvalsdeildinni, Gareth Barry, hafi skrifað undir hjá Hurstpierpoint FC. Gareth hefur lengi verið tengdur bænum í gegnum góðan vin sinn og þjálfara okkar, Michael Standing, svo það lá beint við að fá hann til starfa hjá félaginu okkar. Þeir hæfileikar sem hann hefur sýnt okkur á æfingum eru ótrúlegir og við erum öll mjög spennt að sjá hann klæðast treyju félagsins á vellinum okkar, Fairfield, á komandi tímabil," segir í yfirlýsingu Hurstpierpoint.