Manchester City tapaði fyrir Celtic

Erling Haaland skorar fyrir City í nótt
Erling Haaland skorar fyrir City í nótt AFP/Peter Zay

Celtic lagði Manchester City 4:3 í æfingaleik liðanna sem fram fór í Chapel Hill í N-Karólínufylki í Bandaríkjunum í nótt. Erling Haaland og Jack Grealish voru í byrjunarliði City sem tefldi fram mörgum ungum leikmönnum.

Þjóðverjinn Nicolas-Gerrit Kühn kom Skotunum yfir eftir þrettán mínútna leik áður en Norðmaðurinn Oscar Bobb jafnaði fyrir ensku meistarana. Kühn var aftur á ferðinni þremur mínútum eftir jöfnunarmarkið og Japaninn Kyogo Furuhashi skoraði þriðja mark Celtic sem leiddi 3:1 í hálfleik.

Bæði lið gerðu töluvert af skiptingum í hálfleik en Maximo Perrone og Erling Haaland jöfnuðu metin í 3:3 fyrir City snemma í síðari hálfleik áður en Luis Palma skoraði sigurmarkið fyrir Celtic þegar tuttugu mínútur voru til leiksloka. Lokatölur 4:3 fyrir Celtic.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert