Vináttuleikurinn hófst með slagsmálum

Fyrsti leikur Maresca hófst með látum.
Fyrsti leikur Maresca hófst með látum. AFP/Thearon W. Henderson

Æfingaleikur Chelsea og Wrexham í Santa Clara í Bandaríkjunum í gær byrjaði ekki gæfulega því leikmenn liðanna lentu í harkalegum stimpingum strax á annari mínútu leiksins.

Lætin byrjuðu upp úr þurru því Chelsea var með boltann og Wrexham menn virtust sáttir við að verjast aftarlega á vellinum og leyfa Lundúnarliðinu að spila boltanum á milli sín við miðlínu. James McClean, leikmaður Wrexham, tæklaði Lewis Colwill, varnarmann Chelsea, nokkuð hraustlega og Colwill brást hinn versti við.

Colwill greip í treyju McClean og tókust þeir harkalega á, svo harkalega að liðsfélagar þeirra þurftu að grípa inn í til að ekki færi verr. Hvorugur leikmaðurinn fékk spjald og leiknum lauk með 2:2 jafntefli. Christopher Nkunku og Lesley Ugochukwu skoruðu mörk Chelsea en Luke Bolton og Jack Marriott skoruðu fyrir Velska liðið.

Myndband af atvikinu má sjá hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert